Bjarnveig Birta Bjarnadóttir
í 3. sæti
Ég heiti Bjarnveig Birta Bjarnadóttir, en er alltaf kölluð Birta. Ég er 33ja ára rekstrarstjóri, þriggja barna móðir úr Grafarvogi og sigraði í forprófkjöri Ungs jafnaðarfólks.
Ég bý í Rimahverfi Grafarvogs með manninum mínum Pétri Frey Sigurjónssyni og börnunum okkar sem eru 2, 5 og 6 ára gömul. Ég hef starfað sem rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu Tulipop undanfarin ár og er menntuð í viðskiptafræði ásamt stjórnun og stefnumótun.
Ég ólst upp í Breiðholti með foreldrum mínum sem voru aðeins 16 ára þegar þau áttu mig. Við bjuggum í verkamannabústöðum hjá ömmu minni á meðan foreldrar mínir unnu láglaunastörf og sóttu sér menntun. Ég hef því alltaf gert mér grein fyrir mikilvægi þess að samneyslan sé sterk og að kerfið grípi fólk þegar það þarf á því að halda.
Ég er stoltur fulltrúi ungs fólks en ég hef þann heiður að sigrað í forprófkjöri Ungs jafnaðarfólks, ásamt Stein Olav. Mörg hundruð ungmenni á aldrinum 16-35 ára greiddu mér atkvæði.
Reykjavík er frábær borg en það er margt sem þarf að gera betur. Sérstaklega varðandi barnafjölskyldur, rekstur borgarinnar og úthverfin. Ég óska eftir þínum stuðning í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fer fram rafrænt þann 24. janúnar.
Meðmæli
Birta hefur það innsæi, reynslu og bakgrunn sem þarf til að starfa í þágu borgarbúa. Ég styð Birtu ekki síst af því hún hefur starfað sem rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtæki. Mér finnst mikilvægt að borgarfulltrúar skilji vel rekstur og kunni að forgangsraða fjármunum. Reykjavík sinnir einum umfangsmesta rekstri og þjónustu á Íslandi, og þarf því reka borgina af ábyrgð. Ég treysti Birtu til þess.
Sigyn Jónsdóttir, CTO - Alda
Jónas Már Torfason,
oddvitaefni Samfylkingar í Kópavogi
Birta er skörp og dugleg. Ég veit að hún er að bjóða sig fram til að leiða ákveðnar breytingar í þágu fjölskyldufólks sem búa við veruleika sem hún þekkir á eigin skinni. Hún gengur beint í verkin og mun láta til sín taka í borgarstjórn.
Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, lögfræðingur og varaþingmaður Samfylkingarinnar
Birta er vítamínsprauta fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Orkumikil, óhrædd og gengur í verkin. Við þurfum slíka manneskju. Þær áskoranir sem borgin stendur frammi fyrir eru einna helst áskoranir fyrir ungt fólk. Birta þekkir það á eigin skinni og ég treysti henni fullkomnlega til að leysa úr þeim vandamálum með jafnaðarhugsjón og fagmennsku að leiðarljósi.
Anna María Jónsdóttir, grunnskólakennari
Birta leggur áherslu á ungt fólk sem mér finnst mjög þarft. Hún vill efla tómstundastarf og félagsmiðstöðvar fyrir börn og ungmenni, auka forvarnir, setja símabann í grunnskóla og tryggja að það verði sálfræðingar í öllum grunnskólum. Ég trúi og veit að hún muni beita sér fyrir umbótum í þágu ungmenna og því styð ég hana heilshugar í 3. sæti.
Auður Hermannsdóttir,
aðjunkt við Háskóla Íslands
Birta er mikill fengur fyrir Samfylkinguna. Hún er eldklár og hörkudugleg jafnaðarkona sem lætur verkin tala. Með dýrmæta reynslu úr atvinnulífinu og skýra jafnaðarhugsjón er Birta nákvæmlega manneskjan sem Samfylkingin þarf í borgarstjórn. Ég styð Birtu heilshugar til góðra verka í borginni.
Andrés Jónsson,
almannatengill
Ég tók fyrst eftir Birtu fyrir líklega um 8 árum síðan og ég man að ég hugsaði „vá hvað þessi unga kona er kraftmikil og hugrökk“. Samfylkingin á ekki skilið að stýra borginni áfram nema bjóða upp á endurnýjun bæði fólks og hugmynda. Birta hefur reynslu af rekstri fyrirtækja, hún kemur úr Breiðholti og Grafarvogi og þau hjónin eiga þrjú ung börn. Það vantar sárlega fleira kraftmikið fólk í pólitík. Birta mun láta að sér kveða í borginni.
Áherslumál
Ég ætla að berjast fyrir barnafjölskyldur
Sem þriggja barna móðir þekki ég af eigin raun þær áskoranir sem barnafjölskyldur í borginni standa frammi fyrir. Á íbúðamarkaði, í leikskólum og í baslinu frá degi til dags. Ég veit hvað þarf til að auðvelda daglega lífið og ég ætla að berjast fyrir barnafjölskyldur í borgarstjórn.
Byggjum meira og hraðar. Sköpum rétta hvata fyrir verktaka og tryggjum fjölbreytt framboð af húsnæði svo að barnafjölskyldur geti komið þaki yfir höfuðið og stækkað við sig þegar þörf er á.
Bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar er óviðunandi fyrir foreldra, sérstaklega þá sem þurfa að vinna mikið og eru með minna milli handanna. Bætum starfsaðstæður í skólunum okkar, lögfestum leikskólastigið og tryggjum öllum börnum leikskólavist að loknu fæðingarorlofi.
Horfumst í augu við áskoranir foreldra í daglega lífinu. Tökum ábyrgð á umferðinni með því að hraða uppbyggingu Borgarlínu, fjölga leiðum og tíðni Strætó og léttum undir með foreldrum með því að gera Strætó gjaldfrjálsan fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára.
Ég ætla að passa upp á reksturinn
Sem rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu Tulipop hef ég reynslu af því að passa upp á hverja krónu og velta við öllum steinum í rekstrinum. Tulipop er nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir hágæðaefni fyrir börn á íslensku.
Ég veit hvað þarf til að láta dæmið ganga upp. Það er ekki hægt að fara í öll verkefni, markaðsherferðir og vöruþróanir. Verum óhrædd við að forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi. Á sama tíma þarf að tryggja að forgangsröðun skili árangri með því að auka eftirlit með framgangi mála.
Fjármagnið á að nýtast þar sem það raunverulega hefur áhrif. Hjá borginni eru ferlar orðnir flóknir og skriffinnska mikil. Það verður að vinda ofan af þessari þróun í þágu skilvirkni og velferðar borgarbúa.
Þá þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er mikilvægt að Reykjavík geti staðið undir nauðsynlegri þjónustu við borgarbúa og líka tryggt sjálfbæran rekstur. Í góðri samvinnu við ríkið mætti styrkja fjárhag borgarinnar.
Ég ætla að efla hverfin
í borginni
Sem Breiðhyltingur sem býr núna í Grafarvogi þá get ég með sanni sagt að ég elska úthverfin okkar. Og ég vil beita mér fyrir því að Samfylkingin verði sterk í öllum hverfum borgarinnar og vinni að því að gera þau líflegri og eftirsóknarverðari.
Styrkjum hverfin með því að bæta grænu svæðin okkar og gera þau skemmtilegri, með leikvöllum og gróðri, fjölga leiðum Strætó og efla þjónustu í nærumhverfi. Sköpum hvata til að hefja fjölbreyttan rekstur inni í hverfunum. Eflum sérkenni hverfanna, Gufunesið og Spöngina, Gerðuberg og Elliðaárdalinn
Ég verð öflugur fulltrúi úthverfanna í borgarstjórn.